Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk
Hvíti björninn og litli maurinn er komin út!

Hvíti björninn og litli maurinn er komin út hjá Sölku. Þetta fallega ævintýri segir frá pínulitlum maur sem finnur sér skjól og hlýju hjá hvítum birni. Hvíti björninn og litli maurinn miðlar mikilvægum gildum á borð við vináttu, að hjálpast að og veita aðstoð. Sagan ýtir einnig undir mál- og líkamsvitund barna í gegnum skemmtilega frásögn.

Þrátt fyrir að sagan sé upprunalega spænsk er íslenska fyrsta tungumálið sem bókin er gefin út á. Höfundur bókarinnar er José Federico Barcelona, alltaf kallaður Fede, en Ólafur Páll Jónsson, prófessor í heimspeki við menntavísindasvið HÍ, þýðir bókina. 

Ólafur kynntist Fede þegar hann bjó í Granada ásamt fjölskyldu sinni og heillaðist af sögu hans. Fede hafði komið til Granada til að nema líffræði og starfaði í leikskóla til að sjá fyrir sér. Þegar hann lauk háskólanámi og útskrifaðist sem líffræðingur langaði hann hins vegar ekki til að hætta að vinna á leikskóla og gerði það að ævistarfi sínu. 


Þar sem Ólafur vinnur við að mennta kennara barst tal þeirra félaganna oft að uppeldi og menntun og Ólafur heillaðist mjög af hugmyndum Fede og hvatti hann til að miðla hugmyndum sínum til annarra. Fede svaraði einfaldlega: „Ef ég myndi skrifa eitthvað, þá væri það helst sagan um hvíta björninn“, en þá sögu sagði hann börnum öll þau ár sem hann starfaði á leikskóla. Og það varð úr nokkrum vikum seinna. Loksins hafði Fede skrifað söguna niður en hann var samt svolítið hikandi því hann óttaðist að það að skrifa hana niður myndi breyta henni úr lifandi frásögn í líflítið bókverk. En hikið hvarf þegar myndirnar hennar Sólrúnar Ylfu fóru að berast. Hann var himinlifandi og sagði að með myndunum væri sagan orðin miklu betri en þetta ævintýri sem hann hafði upphaflega skrifað. Og það er rétt hjá Fede. Sólrún Ylfa hefur ekki myndskreytt söguna heldur túlkað og endurskapað söguna með myndum sínum. 


Sólrún Ylfa Ingimarsdóttir er 23 ára og hefur fengist við mynd- og tónlist nær allt sitt líf. Hvíti björninn og litli maurinn er fyrsta bókin sem hún myndlýsir. Sólrún hefur alltaf haft mikið dálæti á barnabókum og hefur aldrei getað snúið bakinu við myndlistinni þrátt fyrir að hún leggi töluverða áherslu á tónlistina um þessar mundir þar sem hún nemur fiðluleik við Konunglega danska tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn.24. ágúst 2020 eftir Anna Lea Friðriksdóttir