Ný barnabók Svefnfiðrildin fjallar um mikilvægi svefns og hvíldar
Bókin Svefnfiðrildin er komin út hjá Sölku. Höfundur bókarinnar er Erla Björnsdóttir. Hún er sálfræðingur og doktor í líf- og læknavísindum og hefur sérhæft sig í rannsóknum á svefni og meðferðum gegn svefnleysi. Erlu fannst vanta efni fyrir börn um mikilvægi svefns og hvíldar og er Svefnfiðrildunum ætlað að svara þeirri þörf.
Sunna er fjörug stelpa sem veit fátt skemmtilegra en að leika við Bjart, besta vin sinn. En undanfarið hefur Sunna verið lasin og mamma hennar ákveður að fara með hana til læknis sem segir Sunnu frá svefnfiðrildunum. Þau hjálpa okkur að sofna og hvílast vel á nóttinni. Svefnfiðrildin eru stórmerkileg og Sunna getur varla beðið eftir að segja öllum frá töfrum þeirra!
Þessi skemmtilega og fallega saga útskýrir mikilvægi svefns og hvíldar fyrir börnum. Í bókinni má einnig finna góð ráð til foreldra varðandi svefn barna og svefndagbók sem hægt er að fylla út með börnum.
Erla Björnsdóttir hefur sérhæft sig í hugrænni atferlismeðferð við svefnleysi og vinnur að rannsóknum á því sviði ásamt samstarfsmönnum í Evrópu og Bandaríkjunum. Hún hefur birt fjölda greina í erlendum ritrýndum tímaritum og einnig skrifað um svefn á innlendum vettvangi.
Erla hefur haldið fjölda fyrlestra og námskeiða og má þar helst nefna fyrirlestra og fræðslu um svefn og svefnvenjur fyrir fyrirtæki og hópa ásamt því að vera með hópnámskeið við svefnleysi. Hún hefur einnig umsjón með www.betrisvefn.is þar sem boðið er uppá hugræna atferlismeðferð við svefnleysi í gegnum internetið.