Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk
Kapítalisminn gegn loftslaginu - lokaviðvörun

Þetta breytir öllu: kapítalisminn gegn loftslaginu eftir Naomi Klein er komin út hjá Sölku. Bókin fjallar um þörfina fyrir róttækar félagslegar breytingar í bland við pólitískar, efnahagslegar og menningarlegar breytingar. Það er ekki tæknileg útfærsla breytinganna sem mestu máli skiptir, hvernig við ætlum að skipta úr óhreinni orku yfir í hreina, þétta byggð og draga úr mengun. Það sem skiptir máli og ræður úrslitum er valdið og hugmyndafræði þess sem hefur hingað til staðið í vegi fyrir því að nokkrar lausnir hafa náð útbreiðslu í nálægt því eins miklum mæli og þörf er á. Það má því segja að kapítalisminn sé gegn loftslaginu og það er stóra mál okkar tíma.

Loftslagsbreytingar eru ekki enn eitt „álitamálið“ til að bæta við listann yfir áhyggjuefni við hliðina á heilbrigðismálum og sköttum. Þær eru lokaviðvörun til siðmenningarinnar. Kröftugur boðskapur sem fluttur er með eldum, flóðum, þurrkum og útdauðum tegundum um að við þurfum algjörlega nýtt efnahagskerfi og nýja leið til þess að deila þessari plánetu. Boðskapur um að við þurfum að þróast.

Getum við þetta? Ekkert er óumflýjanlegt, ekkert nema það að loftslagsbreytingar breyta öllu. Á þeim stutta tíma sem er til stefnu er það undir okkur komið hvers konar breytingar það verða.

__________________________________


Naomi Klein er margverðlaunaður blaðamaður. Hún er þekkt fyrir eitilharðar ádeilur á aðkallandi samfélagsmál á borð við loftslagsmál og spillingu. Eftir að bókin kom út hefur Naomi flutt boðskap hennar á fjölda ráðstefna og framleitt heimildamynd um efni hennar enda veit hún að við erum á síðasta séns ef við eigum að hafa betur í baráttunni.

Klein hefur meðal annars einnig skrifað bækurnar No Logo og Shock Doctrine en Þetta breytir öllu varð samstundis að metsölubók hjá New York Times eftir að hún kom út.  


__________________________________

 

    4. september 2018 eftir Anna Lea Friðriksdóttir