Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk
Kökugleði Evu og Eldum sjálf tilnefndar til Gourmand verðlaunanna

Kökugleði Evu og Eldum sjálf hafa verið tilnefndar til hinna virtu alþjóðlegu Gourmand verðlauna en þau eru veitt árlega fyrir bestu matreiðslubækur í heimi. Kökugleði Evu og Eldum sjálf koma til með að etja kappi við matreiðslubækur frá öllum heimshornum og fer verðlaunaafhendingin fram í Kína í lok maí.

Kökugleði Evu hefur að geyma uppskriftir að rúmlega 80 ljúffengum kökum af öllum stærðum og gerðum fyrir öll tilefni, allt frá smábitakökum að brúðartertum. Uppskriftir sem eru einfaldar og aðgengilegar svo að það er á allra færi að töfra fram dýrðlegar kræsingar. Höfundur bókarinnar er Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir, sem er annálaður sælkeri og mikil kökukerling, eins og hún orðar það sjálf. En bókina prýða glæsilegar ljósmyndir eftir Karl Petersson.

Eldum sjálf er matreiðslubók með uppskriftum fyrir börn á aldrinum 4-10 ára, þar sem einfaldleikinn er hafður að leiðarljósi svo öll fjölskyldan geti ánægjulegar stundir í eldhúsinu. Uppskriftirnar eru einfaldar, hráefni fá og tækjum og tólum stillt í hóf. Auk þess sem uppskriftir eru sýndar myndrænt skref fyrir skref þannig að öll börn, líka þau sem ekki hafa lært að lesa, geta eldað rétti bókarinnar. Dögg Hjaltalín valdi uppskriftir en Birgir Ísleifur Gunnarsson annaðist myndatöku.

1. janúar 2017 eftir Dögg Hjaltalín