Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk
Unnið að útgáfu ljóða Tómasar Guðmundssonar
Salka vinnur nú að endurútgáfu ljóða Tómasar Guðmundssonar en þau voru síðast gefin út fyrir tveimur áratugum. Áætlað er að ljóðasafnið komi út á vormánuðum. „Það er okkur sérstakt ánægjuefni að geta tilkynnt um útgáfuna á ljóðasafni Tómasar Guðmundssonar á afmælisdegi skáldsins, 6. janúar. Tómas er eitt af höfuðskáldunum og við erum afar ánægðar að geta gert hann aðgengilegan á nýjan leik.“ segir Dögg Hjaltalín, útgefandi hjá Sölku. Tómas Guðmundsson er meðal ástsælustu skálda Íslands og eitt af stórskáldum 20. aldarinnar. Tómas er iðulega nefndur Reykjavíkurskáldið en hann orti mörg kvæði tileinkuð borginni og árið 1994 hóf Reykjavíkurborg að veita bókmenntaverðlaun í hans nafni. Eftir Tómas liggja fimm ljóðabækur í fullri lengd; Við sundin blá, Fagra veröld, Stjörnur vorsins, Fljótið helga og Heim til þín Ísland.
6. janúar 2017 eftir Dögg Hjaltalín