Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk
Ólyfjan er komin út

Ólyfjan eftir Díönu Sjöfn Jóhannsdóttur er komin út og við fögnum útgáfunni á 108 í Skeifunni föstudaginn 1. nóvember kl. 17. Léttar veitingar og allir velkomnir. Ólyfjan segir frá Snæja sem álítur lífið eitt stórt djók, eða að minnsta kosti sannfærir hann sjálfan sig um það. Með því hugarfari nálgast hann sambönd, fjármál og vinnu. Á tímum er hann sannfærður að hann hljóti að hálfgerður snillingur fyrir að finna upp á þvílíkri lífsspeki en á öðrum stundum læðist nagandi sjálfsefinn að honum. Er það kannski hann sem er brandari bæjarins? 


Ólyfjan er fyrsta skáldsaga Díönu Sjafnar Jóhannsdóttur en áður hefur hún gefið út ljóðabókina FREYJA. Eitruð karlmennska, sjálfsmyndir, samfélagið og skáldsagnaformið eru meðal stefa í þessari frumraun höfundar. 


Díana Sjöfn Jóhannsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1992. Hún hefur lokið prófi í almennri bókmenntafræði og mastersnámi í menningarfræði. Díana hefur unnið mikið með börnum og ungmennum með fatlanir og starfar nú sem verkefnastjóri hjá Átaki, félags fólks með þroskahömlun auk þess að skrifa, meðal annars pistla fyrir Kjarnann.

31. október 2019 eftir Anna Lea Friðriksdóttir