Skaði eftir Sólveigu Pálsdóttur er komin út!
Útgáfu Skaða eftir Sólveig Pálsdóttur var fagnað að viðstöddu fjölmenni í bókabúð Sölku. Einnig var skálað fyrir æviminningum Sólveigar, Klettaborginni, sem kom út í fyrra.
Skaði er hörkuspennandi saga sem talar beint inn í samtímann. Meðal þess sem bókin gerir að umfjöllunarefni sínu eru þeir djöflar sem margir draga og hversu langt fólk er tilbúið að ganga, stundum með hugbreytandi efnum á borð við ayahuasca, til að hljóta andlega frelsun.
Rannsóknarlögreglumaðurinn Guðgeir snýr aftur í þessari sjöttu spennusögu höfundar og í þetta sinn er teymi hans kallað að tjaldsvæðinu í Herjólfsdal í kjölfar voveiflegra atburða. Skemmtiferð vinahjóna hefur farið á annan veg en til stóð og ljóst er að margt býr undir yfirborði og ásjónu fólks. Rannsókn lögreglunnar teygir anga sína víða, allt frá eldfjallaeyjunni til frumskóga Mið-Ameríku.
Sólveig hlaut Blóðdropann, verðlaun fyrir bestu íslensku glæpasöguna, fyrir síðustu spennusögu sína, Fjötra, og var framlag Íslands til Glerlykilsins, norrænu glæpasagnaverðlaunanna. Bækur hennar hafa verið þýddar á ensku og þýsku. Útgáfurétturinn af Skaða hefur þegar verið seldur til Bretlands en útgefandi hennar þar í landi tryggði sér réttinn löngu áður en fullbúið handrit var komið í hans hendur enda höfðu fyrri bækur hennar, Refurinn og Fjötrar, fengið frábærar viðtökur þar í landi, meðal annars með góðum umsögnum í Financial Times og The Guardian.