Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk
Tvær tilnefningar til Barnabókaverðlauna Reykjavíkur

Við erum afskaplega stoltar að tilkynna að tvær barnabækur Sölku eru tilnefndar til Barnabókaverðlauna Reykjavíkur í flokki bestu myndlýstu bóka ársins 2018. Þær eru Snuðra og Tuðra eiga afmæli eftir Iðunni Steinsdóttur og Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur og Milli svefns og Vöku eftir Önnu Margréti Björnsson og Laufeyju Jónsdóttur. Í umsögn dómnefndar segir meðal annars: 

Myndirnar í Snuðra og Tuðra eiga afmæli eru ekki síður fyndnar en frásögnin. Myndhöfundi tekst vel að draga fram skemmtilegar áherslur sögunnar en Lóa Hlín hugar að hverju smáatriði, hvort sem það er Haribo-nammi, mynstur í borðdúk eða legókubbur á afmælistertu, og teiknar ýktar og svolítið ófrýnilega sögupersónur í fallegum fötum og heimilislegu umhverfi. Skondnar andstæður sem höfða til jafnt barna sem foreldra.

Í Milli svefns og Vöku er fjallað um undarlegar verur sem eiga það til að birtast þegar húmar að. Myndverk bókarinnar einkennist af svipsterkum, svarthvítum teikningum þar sem myndbygging, ólíkir tónar, mynstur og uppsetning kalla fram dulúðlegt andrúmsloft. Saman skapa myndirnar fallega heild sem gefur góða innsýn í hugarheim sögupersónunnar Vöku og ótta hennar við það sem felur sig í myrkrinu.

27. mars 2019 eftir Anna Lea Friðriksdóttir