Þriðja bókin um Kormák lítur dagsins ljós
Bækurnar um Kormák eftir Jónu Valborgu Árnadóttur og Elsu Nielsen eru nú orðnar þrjár talsins og nýjasta bókin í þessum bókaflokki fyrir yngstu lesendurna, Kormákur dýravinur, er komin út. Kormáksbækurnar spegla veruleika íslenskra leikskólabarna og Kormákur glímir við hinu ýmsu viðfangsefni, allt frá því að skilja hvers vegna má ekki vera í krummafót að því að finna leið til að eignast gæludýr þótt heimilismeðlimir kunni að vera með ofnæmi.
Bækurnar um Kormák eru ávöxtur gjöfuls samstarfs Jónu Valborgar Árnadóttur og Elsu Nielsen en þær hafa unnið saman að fjölda barnabóka í gegnum tíðina. Búast má við að íslenskar fjölskyldur njóti áfram góðs af samstarfi þessara góðu kvenna en Jóna Valborg er nýkomin heim úr gestadvöl í Åmål þar sem hún sat við skriftir í boði AIR Litteratur í Svíþjóð. Mikið stendur einnig til hjá Elsu Nielsen en hún opnar einkasýningu á myndum sínum í íslenska sendiráðinu í Kaupmannahöfn í byrjun maí.