Nýr eftirtektarverður höfundur á íslenskum spennusagnavettvangi
Röskun er ný íslensk spennusaga var að koma út hjá Sölku. Röskun segir frá Heru sem er full tilhlökkunar að flytja í kjallaraíbúðina sem hún var að kaupa í Þingholtunum. Skömmu eftir flutningana finnur hún fyrir óþægilegri nærveru í íbúðinni og upplifir undarlega atburði. Á hún að treysta sjálfri sér eða er þetta allt saman hugarburður? Saga Stellu sem bjó áður í íbúðinni vekur forvitni Heru og hún leitar svara í henni. Smám saman rennur upp fyrir Heru að heima er ef til vill ekki alltaf best.
Röskun er fyrsta bók hennar Írisar Aspar Ingjaldsdóttur sem er eftirtektarverður nýr höfundur á íslenskum spennusagnavettvangi.
Íris Ösp er lögfræðingur að mennt og fyrrum fimleikakona, auk þess að vera nú orðin rithöfundur.
Íris hefur haft áhuga á ritlist frá barnæsku og ákvað að sækja námskeið í skapandi skrifum hjá Þorvaldi Þorsteinssyni heitnum og seinna hjá Björgu Árnadóttur. Hún hefur einnig lært leikritun hjá Hlín Agnarsdóttur. Íris hefur skrifað margar smásögur og birtist ein þeirra í ritinu 13 krimmar árið 2009 og auk þess sem nokkrar komu út í smásagnasafninu Bláar dyr árið 2013.
Röskun er fyrsta skáldsaga Írisar.