Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk
Zero Waste-drottningin Bea Johnson væntanleg til landsins

Í tilefni af útgáfu bókarinnar Engin sóun - leiðarvísir að einfaldara, sorplausu heimili heldur höfundur bókarinnar og Zero Waste-drottningin Bea Johnson fyrirlestur í Veröld, húsi Vigdísar sunnudaginn 5. janúar kl. 20. Miða á viðburðinn og bókina má kaupa hér.


Sífellt fleiri aðhyllast sorplausan lífsstíl og hreyfingin í kringum hugmyndafræðina stækkar á hverjum degi. Enda eru náttúruauðlindir að verða þurrausnar og ljóst er að við þurfum að breyta mynstri okkar. Langflest vilja lifa vistvænni lífsstíl en eiga erfitt með að finna auðveldar leiðir til þess umfram það að flokka sorp til endurvinnslu. Bók Beu og fyrirlestri hennar er ætlað að veita innblástur og uppbyggjandi ráð á jákvæðan hátt enda er Bea þeirrar skoðunar að framlag hvers einstaklings skipti máli og að breytingarnar eru í okkar eigin höndum. 


Saga Beu og fjölskyldu hennar er afar hvetjandi en þau fóru frá því að eiga tvöhundruð og áttatíu fermetra heimili með þreföldum bílskúr, fataherbergjum og tjörn fyrir koi-fiska í bandarísku úthverfi þar sem þau fylltu tvöhundruð og fjörutíu lítra ruslatunnu í hverri viku í það að losa sig við 80% af eigum sínum, flytja í minna hús, minnka úrgang heimilisins margfalt og finna í því hamingju og jafnvægi. Bókin Engin sóun lýsir ferðalagi fjölskyldunnar og gefur hagnýt ráð fyrir þá sem vilja tileinka sér lífsstílinn. Bea talar hreinskilnislega um þá árekstra sem kunna að koma upp og mikilvægi þess að finna jafnvægi í aðgerðum sínum. 


Þóra Margrét Þorgeirsdóttir þýðir bókina en hún hefur undanfarin ár haldið úti síðunni Minna sorp: lærdómsferli fjölskyldu þar sem mörg þúsund manns fylgjast með henni og fjölskyldu hennar æfa sig í að vera ábyrgir neytendur með það fyrir augum að minnka allt sorp heimilisins og gera það umhverfisvænna, einkum með því að kaupa minna og kaupa vistvænt.

2. janúar 2020 eftir Anna Lea Friðriksdóttir