Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk
Farnar til Kína, ekki að grína

Við erum lentar í Yantai eftir sólarhring á ferðalagi og frekar hressar miðað við það. Í upphafi ferðar
Ferðalagið byrjaði mjög vel með góðum vinum í Leifsstöð og svo var ferðinni heitið til London. 

 

Eftir stutt stopp tók Air China á móti okkur í 10 tíma löngu flugi með tveimur heitum máltíðum og kínverskum bjór. Air China fær prik fyrir góða afþreyingu um borð, Anna Lea sat sveitt í póker á meðan Dögg spilaði Pac-Man undir ljúfum tónum Bjarkar. Rómantíska gamanmyndin When Larry met Mary sló í gegn enda Kínverjar þekktir fyrir góðar endurgerðir.

When Larry met Mary

Kína er greinilega ekki jafn heitur áfangastaður og Ísland um þessar mundir því vélin var hálftóm og því voru ýmis tilbrigði við svefnstöður prófuð, með mjög misjöfnum árangri. Gólfið var a.m.k. ekki að virka.

Í Beijing var stutt stopp þar sem við borðuðum núðlusúpur, dumplings og drukkum kínverskan bjór með innfæddum enda ekki mikið af Vesturlandabúum í innanlandsflugi í Kína.

Eftir stranga öryggisgæslu þar sem sólarvörnin var gerð upptæk skelltum við okkur í stutt flug til Yantai.

Á fjórða flugvellinum á þessu ferðalagi fengum við höfðinglegar móttökur en það er ekki á hverjum degi sem skiltið sem á stendur “Best in the world” er ætlað okkur og bakvið það bílstjórinn okkar.

Á morgun hefst svo dagskrá Gourmand verðlaunanna með allskyns kynningum á mat og víni og svo er sjálf verðlaunafhendingin á sunnudaginn en bæði Kökugleði Evu og Eldum sjálf eru tilnefndar til Gourmand verðlaunanna, Eldum sjálf í flokki matreiðslubóka fyrir börn og Kökugleði Evu í baksturs- og kökubókum.

Meira síðar.

 

25. maí 2017 eftir Dögg Hjaltalín