Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk
Grænkerakrásir Guðrúnar Sóleyjar valin besta veganbók í heimi

Grænkerakrásir Guðrúnar Sóleyjar valin besta veganbók í heimi

Matreiðslubók fjölmiðlakonunnar Guðrúnar Sóleyjar Gestsdóttur, Grænkerakrásir, hlaut á dögunum hin alþjóðlegu Gourmand-matreiðslubókaverðlaun í tveimur flokkum. Annars vegar í flokki veganbóka þar sem hún hreppti fyrsta sætið og hins vegar í flokki skandínavískra bóka þar sem hún hafnaði í þriðja sæti. Bækur frá fleiri en 200 löndum og landsvæðum keppast um verðlaunin árlega og samkeppnin er hörð. Gourmand-verðlaunin hafa verið veitt frá árinu 1995. 
19. júní 2020 eftir Dögg Hjaltalín
Eldum sjálf og Kökugleði Evu meðal bestu matreiðslubóka heims

Eldum sjálf og Kökugleði Evu meðal bestu matreiðslubóka heims

Aðaldagurinn var upprunninn en verðlaunafhendingin fór fram síðasta kvöldið í Yantai. Mikil eftirvænting var í hópnum og ljóst að ekki færu allir heim með verðlaun. 
Þegar við komum út um morguninn var eins og við gengjum á vegg, hitinn var svo rosalegur eða rúmlega 35 gráður.

 

BækurVið röltum mjög hægt á sýningarsvæðið og aldrei þessu vant völdum við skuggann til að labba í. Þar skoðuðum við gaumgæfilega allar hinar bækurnar sem voru tilnefndar og við fengum margar góðar hugmyndir við það að skoða hvað fólk frá öllum heimshornum er að gera í matargerð. Bækurnar voru ótrúlega fjölbreyttar og áhugaverðar og greinilega mikil gróska í þessum bransa. Það sem kom okkur mest á óvart var hversu fjölbreyttar matreiðslubækurnar á kínversku voru en þær voru um allt frá makkarónum til eðalvína.

TennisEftir að hafa skoðað vel allar bækurnar og rætt við fólk um þær og sýnt þeim okkar bækur ákváðum við að geta ekki meira í hitanum og gerðum eins og heimamennirnir sem flykktust á ströndina. Þar voru einhverjir litlir krabbar sem við höfðum ekki rekið augun í áður og var því gangan á ströndinni frekar stutt þennan daginn. Á hótelinu okkar var tennisvöllur á þakinu og við ákváðum að taka smá leik þegar skugginn var kominn yfir völlinn. Við höfum greinilega eitthvað misst niður tennishæfileikana en mestur tíminn fór í að elta bolta sem við misstum af. Eftir að hafa spilað tennis skelltum við okkur í sund og gufu eins og maður gerir í 35 stiga hita.

Eldum gourmandSvo var komið að hápunktinum, sjálfri verðlaunafhendingunni en hún fór fram á stóru sviði utandyra í mikilli sól og gríðarlegum hita. Ýmsir kokkar og aðrir sem koma að útgáfu matreiðslubóka voru verðlaunaðir í mismunandi flokkum en við vissum að okkar flokkar væru seint í röðinni. Fólk sýndi mismikla stillingu þegar það tók við verðlaunum og brustu nokkrir í grát og sýndi miklar tilfinningar ólíkt okkur Íslendingum. Það var gaman að sjá nýju vini okkar fá verðlaun fyrir alla þá miklu vinnu og alúð sem það hefur lagt í bækurnar sínar.

Eldum og Kökugleði í GourmandVið fögnuðum að sjálfsögðu þegar í ljós kom að Eldum sjálf hafi verið valin ein af bestu matreiðslubókum fyrir börn í heiminum. Það er frábær árangur því Eldum sjálf keppti við fullt af mjög flottum bókum frá til að mynda Urugay og Hollandi. Kökugleði Evu var einnig tilnefnd í flokki kökubóka en þar bar Ungverjaland sigur úr býtum en er það mikill heiður að fá tilnefninguna samt sem áður og við getum því með sanni sagt að við séum á heimsmælikvarða í útgáfu matreiðslubóka.

DinnerEftir verðlaunaafhendinguna og myndatökur var búið að slá upp langborði sem náði yfir alla aðalgötuna og þar var kvöldverðurinn snæddur. Sessunautar okkur voru Ungverjarnir sem unnu í flokki kökubóka og voru þeir mjög áhugasamir um bækurnar okkar og létum við þá að sjálfsögðu fá eintök af þeim þar sem þeir hafa áhuga á að skoða að gefa út bækurnar í Ungverjalandi. Á boðstólum var aftur heilgrilluð belja sem hafði verið á fæti í haga um morguninn. Kjötið var seigt eftir því en kínverskir dumplings björguðu kvöldinu. Svo var haldið aftur á hótelbarinn þar sem fólk var mjög glatt eftir daginn og var dansað við Macarena, Gangnam Style og aðra sígilda slagara og endaði fólk með að þurfa að kæla sig í gosbrunni hótelsins eftir heitan og langan dag.

 

 

Morguninn eftir tók svo við sólarhringsferðalag til að komast aftur heim á klakann. Ferðalagið gekk vel þótt að ein taska sé enn á kínverskri grundu. Við hittum Ólaf Ragnar Grímsson sem var samferða okkur frá Beijing til London og hann óskaði okkur til hamingju með árangurinn. Nú tekur veruleikinn við á nýjan leik og við erum uppfullar af innblæstri eftir frábæra ferð með góðu fólki! Hver veit nema við hittum það aftur á Gourmand 2018 :)

 

30. maí 2017 eftir Dögg Hjaltalín
Víkingaklappið á kínverska vísu

Víkingaklappið á kínverska vísu

Hjólatúr YantaiÍ Kína eru margir á hjólum og við ákváðum að gera eins og innfæddir og leigja okkur hjól og skoða borgina. Við hjóluðum meðfram ströndinni og það góða við að hjóla hérna er að það er enginn mótvindur og engar brekkur. Við spændum upp kílómetrana og hjóluðum framhjá endalaust af auðum blokkum. Það er örugglega meira húsnæði laust hérna heldur en það sem búið er í. Fólk á götunni var ekkert að fela hversu skrítnar þeim fannst við vera en við höfum greinilega náð að aðlagast samfélaginu mjög vel því ein spurði okkur hvort við byggjum hér í Yantai. 

ChauteuKínverjarnir eru annars mjög góðir í að finna upp ýmis tilbrigði við hefðbundna drykki. Við stoppuðum á litlu kaffihúsi þar sem við völdum rautt kampavín og bjuggumst við einhverju góðu. Þegar við fengum drykkinn var hann brúnleitur og bragðaðist mjög undarlega. Á næsta borði var strákur sem talaði ensku og hann spurði fyrir okkur hvað væri í þessu. Konan svaraði mjög stolt að þetta væri kók og ekkert annað blandað við freyðivínið. Þetta er mesta sóun á freyðivíni sem hægt er að hugsa sér. Við enduðum svo hjólatúrinn á vínbúgarði í miðri borg sem minnti meira á þýskan herragarð og var mikil sárabót eftir rauða kampavínið. Vínkjallarinn var mjög næs því þar var svo kalt en við erum frekar mikið að stikna hérna allan daginn því 30 gráður plús er svolítið mikið fyrir okkur.  


Vínsafn brandí

 

Við hittum að sjálfsögðu matreiðslubókahöfund þar frá Japan sem við þurftum að leiða í allan sannleikann um kínversk vín. Við fengum að sjálfsögðu að smakka bæði hvítt og rautt vín, hvítvínið var ódrekkandi en rauðvínið var fínt. Við fengum einnig að tappa brandí á flöskur sjálfar og taka með okkur. Það verða einhverjir heppnir sem fá að smakka það en það verður vel geymt á Suðurlandsbrautinni. 

Brennivín

Í Yantai er verið að opna vínsafn með vínum frá öllum heiminum og við komum að sjálfsöðu með Brennivín. Kínverjarnir tóku vel á  móti gjöfinni og fylgir nafn Sölku gjöfinni. Við verðum a.m.k. að koma aftur hingað síðar til að koma á safnið og skoða Brennivínið. Seinnipartinn var svo formleg opnunarathöfn Gourmand verðlaunanna þar sem við gengum með íslenska fánann ásamt öllum öðrum verðlaunahöfunum sem koma frá yfir 50 löndum. 

Eftir opnunarathöfnina var komið að verðlaunaafhendingu fyrir bækur um vín og matreiðslubækur sem gefnar eru út í góðgerðaskyni. Einnig voru sjónvarskokkar og matreiðslubloggarar verðlaunaðir. Annað kvöld er svo komið að verðlaunafhendingunni okkar. Þegar við vorum búnar að losa okkur við brennivínið klæddum við okkur upp í hefðbundinn kínverskan fatnað og vöktum gífurlega lukku meðal kínverskra vina okkar sem gengu framhjá. 

DinnerUm kvöldið var gala kvöldverður þar sem boðið var upp á hefðbundinn kínverskan mat, skelfisk, kjöt og grænmeti í mismunandi sósum, allt mjög gott en við pössuðum á soðnu fiskibollunum. Að sjálfsögðu voru einhverjar ræður og formleg dagskrá og til að peppa stemninguna tóku kínversku kynnarnir víkingaklappið og fengu salinn með sér eins og ekkert væri eðlilegra. Sessunautar okkar í matnum eru þaulreyndir í matarbransanum en þeir sjá meðal annars um matinn á Nóbelsverðlaununum. 


Meira á morgun... 

28. maí 2017 eftir Dögg Hjaltalín
Farnar til Kína, ekki að grína

Farnar til Kína, ekki að grína

Við erum lentar í Yantai eftir sólarhring á ferðalagi og frekar hressar miðað við það. Í upphafi ferðar
Ferðalagið byrjaði mjög vel með góðum vinum í Leifsstöð og svo var ferðinni heitið til London. 

 

Eftir stutt stopp tók Air China á móti okkur í 10 tíma löngu flugi með tveimur heitum máltíðum og kínverskum bjór. Air China fær prik fyrir góða afþreyingu um borð, Anna Lea sat sveitt í póker á meðan Dögg spilaði Pac-Man undir ljúfum tónum Bjarkar. Rómantíska gamanmyndin When Larry met Mary sló í gegn enda Kínverjar þekktir fyrir góðar endurgerðir.

When Larry met Mary

Kína er greinilega ekki jafn heitur áfangastaður og Ísland um þessar mundir því vélin var hálftóm og því voru ýmis tilbrigði við svefnstöður prófuð, með mjög misjöfnum árangri. Gólfið var a.m.k. ekki að virka.

Í Beijing var stutt stopp þar sem við borðuðum núðlusúpur, dumplings og drukkum kínverskan bjór með innfæddum enda ekki mikið af Vesturlandabúum í innanlandsflugi í Kína.

Eftir stranga öryggisgæslu þar sem sólarvörnin var gerð upptæk skelltum við okkur í stutt flug til Yantai.

Á fjórða flugvellinum á þessu ferðalagi fengum við höfðinglegar móttökur en það er ekki á hverjum degi sem skiltið sem á stendur “Best in the world” er ætlað okkur og bakvið það bílstjórinn okkar.

Á morgun hefst svo dagskrá Gourmand verðlaunanna með allskyns kynningum á mat og víni og svo er sjálf verðlaunafhendingin á sunnudaginn en bæði Kökugleði Evu og Eldum sjálf eru tilnefndar til Gourmand verðlaunanna, Eldum sjálf í flokki matreiðslubóka fyrir börn og Kökugleði Evu í baksturs- og kökubókum.

Meira síðar.

 

25. maí 2017 eftir Dögg Hjaltalín