Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk
Fjötrar valin besta íslenska glæpasagan

Sólveig Pálsdóttir hlaut í dag Blóðdropann 2020 fyrir skáldsögu sína, Fjötra, en verðlaunin eru veitt ár hvert fyrir bestu íslensku glæpasögu undanfarins árs. Útgefandi bókarinnar er Salka. Metfjöldi glæpasagna voru tilnefndar í ár, 20 talsins. Hið íslenska glæpafélag stendur að verðlaununum og verðlaunabókin er framlag Íslands til Glerlykilsins, norrænu glæpasagnaverðlaunanna, árið 2021. Dómnefnd skipuðu Páll Kristinn Pálsson, formaður, Helga Birgisdóttir og Kristján Atli Ragnarsson.

Í umsögn dómnefndar um verðlaunabókina segir: 

Niðurstaða dómnefndar er sú að Fjötrar eftir Sólveigu Pálsdóttur sé verðskuldaður sigurvegari að þessu sinni. Í sögunni fléttar Sólveig á frumlegan og öruggan hátt saman sögum af mannshvarfi, misnotkun og sjálfsskaða í spennandi frásögn sem litast af leyndarmálum fjölskyldna. Ljóst er frá fyrstu síðu að lesandi er í öruggum höndum höfundar sem hefur góð tök á öllum þráðum fléttunnar og hefur vandað til verks. Frásögn Sólveigar er í senn spennandi, áhugaverð, kímin og sorgleg. Afraksturinn er bók sem lætur engan ósnortinn.

Fjötrar segir frá konu sem finnst látin í klefa sínum í fangelsinu á Hólmsheiði. Guðgeir og félagar hans rannsaka málið sem reynist hafa ótal þræði og teygja anga sína víða, alla leið til stóra skjálftans um aldamótin þar sem ungur maður hvarf sporlaust. Lögreglan stendur frammi fyrir stórum spurningum og kynnist hversu langt fólk er tilbúið að ganga til að viðhalda ákveðinni mynd af sér út á við og hvers fjölskyldur eru megnugar til að vernda leyndarmál sín.

Sólveig Pálsdóttir er leikkona og starfaði lengi við leiklist og kennslu í framhaldsskóla áður en hún sneri sér alfarið að ritstörfum. Fjötrar er fimmta bók Sólveigar Pálsdóttur. Bækur Sólveigar hafa verið tilnefndar til Blóðdropans, þýddar á þýsku og sem stendur vinna bresk framleiðslufyrirtæki að gerð sjónvarpsþátta eftir síðustu bók hennar, Refnum. Sólveig er bæjarlistamaður Seltjarnarness 2019, fyrst rithöfunda. Breska útgáfufyrirtækið Corylus tryggði sér nýverið útgáfuréttinn að verðlaunabókinni Fjötrum og Refnum sem kom út árið 2017 og munu þær vera aðgengilegar enskumælandi lesendum á allra næstu misserum.

Breskir framleiðendur vinna einnig að gerð sjónvarpsþáttaraðar sem byggir á Refnum. Stefnt er að því að taka þættina upp hér á landi en sögusvið bókarinnar er austurland, nánar tiltekið Höfn í Hornafirði og Lónið. 

10. júní 2020 eftir Anna Lea Friðriksdóttir