Uppfinningastelpa með bein í nefinu
Lukka er komin í sumarfrí og ætlar að nýta tímann til að koma hugmyndavélinni sinni í gang. Hún er nefnilega uppfinningamaður. Eða réttara sagt, uppfinningastelpa. Fyrirætlanir hennar fara þó út um þúfur þegar hún og Jónsi bróðir hennar þurfa enn einu sinni að fara með foreldrum sínum í vinnuferð út á land. Það er þó ekki allt sem sýnist í rólega bænum Smáadal. Mörg hundruð kindur hafa horfið sporlaust í skjóli nætur og óvæntir atburðir eiga eftir að gera þetta sumarfrí vægast sagt eftirminnilegt.
Lukka og hugmyndavélin er fjörug og ríkulega myndskreytt spennusaga þar sem kindur, kexverksmiðja, veiðimaður og ótrúlegir kraftar ímyndunaraflsins koma meðal annars við sögu.
Lukka og hugmyndavélin er önnur bók Evu Rúnar Þorgeirsdóttur en hún hefur áður gefið út barnabókina Auður og gamla tréð. Eva Rún er útskrifaðist sem verkefnastjóri frá Kaospilot háskólanum í Árósum árið 2006 og hefur fengist við ýmis konar viðburðastjórnun og verkefni sem tengjast menningu og listum síðan þá. Meðfram skrifum starfar Eva sem jógakennari og hefur kennt fjölbreyttum hópi fólks jóga síðastliðin sjö ár, en hefur þó mest fengist við að kenna börnum á aldrinum 5-10 ára jóga, slökun og hugleiðslu.
Myndirnar í bókinni eru eftir Loga Jes Kristjánsson. Logi starfar sem lögreglumaður hjá Ríkislögreglustjóra en útskrifaðist frá Arizona State Univeristy í grafískri hönnun og hefur fengist við að teikna frá unga aldri. Hann hefur áður teiknað myndir í barnabókina Lilli og leitin að Fáfni.