Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk
Ormhildarsaga - ný íslensk myndasaga

Ormhildarsaga - ný íslensk myndasaga

Árið er 2043. Jöklar heims hafa bráðnað og leyst úr læðingi fornar vættir. Á Fróneyjum reika nykrar, skoffín og nátttröll um göturnar en íbúar hafa lært að lifa í sambúð með þessum hættulegu þjóðsagnaverum.

Ormhildur, ungur fræðimaður hjá Kukl- og galdrarannsóknarsetri ríkisins, hefur fundið fornan seið sem læsir kvikindin aftur í klakabrynju. En til að fremja galdurinn þarf hún að komast á tind Heklu. Hennar bíður langt og hættulegt ferðalag frá Breiðholtseyju. Hún leitar á náðir Heimavarnarliðsins en í ljós kemur að það vilja ekki allir hverfa aftur til tíma tvöfaldra mokka frappuccino og sólarlandaferða.

Höfundur Ormhildarsögu er Þórey Mjallhvít H. Ómarsdóttir. Hún er teiknimyndahöfundur, hreyfimyndagerðakona og teiknari. Auk þess að skrifa söguna, teiknaði hún og litaði myndirnar, setti bókina upp og bjó til letrið sjálf.

Þórey hefur myndskreytt fjölda bóka en einnig unnið að hreyfimyndum fyrir heimildamyndir og stuttmyndir. Þórey er með BA í hreyfimyndagerð frá University of Wales, Newport og einnig með meistaragráðu úr ritlist frá Háskóla íslands. Þórey kennir hreyfimyndagerð og myndasögur víðsvegar um borgina.

Þórey vinnur nú að handriti að teiknimyndaseríu fyrir alþjóðlegan sjónvarpsmarkað byggt á Ormhildarsögu í samstarfi við framleiðslufyrirtækið Compass films.

Ormhildarsaga er einstaklega metnaðarfull myndasaga í fullri lengd en bókin telur nærri 200 síður. Skilgreiningar í myndasögulandinu eru oft vandmeðfarnar en það má kalla bókina myndaskáldsögu (e. graphic novel) og er hún ein af afar fáum sem teljast mætti til hérlendra myndaskáldsagna. Bókin er í senn fyndin og feminísk ásamt því að vera gagnrýnin á samfélagið eins og dystópískar heimsendasögur vilja gjarnan vera.

9. nóvember 2016 eftir Dögg Hjaltalín