Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk
Bókakvöld - Breytingaskeiðið og kynlíf

Bókakvöld - Breytingaskeiðið og kynlíf

Verið hjartanlega velkomin á bókakvöld í bókabúð Sölku þriðjudagskvöldið 17. október kl. 20. Bækurnar sem kynntar verða að þessu sinni eru Breytingaskeiðið og Lífið er kynlíf. Halldóra Skúladóttir mun tala um breytingaskeiðið og Áslaug Kristjánsdóttir um Lífið er kynlíf. Bókabarinn verður að sjálfsögðu opinn og tími mun gefast til umræðna og spurninga um þessi stóru viðfangsefni!
Öll hjartanlega velkomin!
13. október 2023 eftir Anna Lea Friðriksdóttir
Bókakvöld - Hugrekki með Höllu Tómasdóttur

Bókakvöld - Hugrekki með Höllu Tómasdóttur

BÓKAKVÖLD MIÐVIKUDAGINN 6. SEPTEMBER KL. 20
Verið hjartanlega velkomin á fyrsta bókakvöld haustsins í bókabúð Sölku við Hverfisgötu. Halla Tómasdóttir verður gestur kvöldsins og hún kynnir nýútkomna bók sína, Hugrekki til að hafa áhrif. Halla tekur öllum spurningum fagnandi og við hvetjum alla til að taka þátt í spjallinu. Bókabarinn verður að sjálfsögðu opinn og bókin á tilboði. Öll velkomin!
28. ágúst 2023 eftir Anna Lea Friðriksdóttir
Hin íslenska litabók er komin út!

Hin íslenska litabók er komin út!

Hin íslenska litabók eftir Sísí Ingólfsdóttur er komin út á íslensku og ensku! Samhliða útgáfunni stendur yfir listasýning og uppboð í kjallara Sölku við Hverfisgötu til og með laugardagsins 2. september. Verið hjartanlega velkomin!

 

Ferðastu um Ísland og gefðu sköpunargleðinni lausan tauminn með þessari skemmtilegu og einstöku litabók úr smiðju listakonunnar Sísíar Ingólfsdóttur. Í Hinni íslensku litabók má finna 54 myndir sem sýna íslenska náttúru, þjóðlíf, menningu og ýmis sérkenni íslensku þjóðarinnar. Meðal þess sem finna má á myndunum er:


  • Víkingar í daglegu amstri
  • Kirkjufell undir norðurljósum
  • Gleðigangan
  • Djákninn á Myrká
  • Hvalir við strendur Íslands
  • Fjallkonan

…og margt, margt fleira!

26. ágúst 2023 eftir Anna Lea Friðriksdóttir
Fögnum Árangursríka stjórnandanum

Fögnum Árangursríka stjórnandanum

Verið hjartanlega velkomin að fagna útgáfu bókarinnar Árangursríki stjórnandinn eftir Peter F. Drucker, í íslenskri þýðingu Kára Finnssonar, í bókabúð Sölku 16. júní kl. 17! Bókin verður fáanleg á góðu verði, léttar veitingar í boði og öll velkomin!
13. júní 2023 eftir Anna Lea Friðriksdóttir
Útgáfufjör á 17. júní!

Útgáfufjör á 17. júní!

Hæhó og jibbíjei! Hátíðarhöldin á 17. júní hefjast í bókabúð Sölku því þar fögnum við útgáfu bókarinnar Úlfur og Ylfa - Ævintýradagurinn eftir Ingileif Friðriksdóttur og Maríu Rut Kristinsdóttur milli kl. 12-14. Sleikjóar, blöðrur og annað skemmtilegt sem fylgir þjóðhátíðardeginum á boðstólum fyrir hressa krakka og að sjálfsögðu heitt á könnunni fyrir eldri kynslóðina. Það er tilvalið að líta við fyrst á Hverfisgötunni áður en haldið er í skrúðgöngu og tónleika! Öll hjartanlega velkomin og bókin að sjálfsögðu á góðu tilboði. Við hlökkum til að sjá ykkur sem flest!
13. júní 2023 eftir Anna Lea Friðriksdóttir
Bókabarsvar með Kamillu Einars í bókabúð Sölku

Bókabarsvar með Kamillu Einars í bókabúð Sölku

Verið velkomin á pöbbkviss í bókabúð Sölku fimmtudaginn 1. júní kl. 18!
Spyrill og höfundur spurninga er hin ævinlega hressa Kamilla Einarsdóttir. Spurningar munu bera þess merki að rithöfundur semur þær og spyr þeirra innan veggja bókabúðar - það verður sem sagt bókaþema.
Happy hour á bókabarnum á meðan keppni stendur, bjórspurningin er á sínum stað og verðlaun í boði fyrir sigurvegara.
Tveir og tveir saman í liði og allir hjartanlega velkomnir!
30. maí 2023 eftir Anna Lea Friðriksdóttir
Bókin um Jómfrúna hlaut Gourmand-verðlaunin

Bókin um Jómfrúna hlaut Gourmand-verðlaunin

Um helgina hlaut bókin um Jómfrúna alþjóðlegu matreiðslubókaverðlaunin Gourmand við hátíðlega athöfn í Umeå í Svíþjóð og sannaðist þar með það sem margir telja sig þegar vita, nefnilega að Jómfrúin er best í heimi! Jakob E. Jakobsson höfundur bókarinnar og eigandi Jómfrúarinnar tók við verðlaununum og voru útgefendur hjá Sölku með í för við þetta gleðilega tilefni. 

Matreiðslubækur frá fleiri en 200 löndum taka þátt í Gourmand ár hvert en verðlaunin hafa verið veitt frá árinu 1995. 

30. maí 2023 eftir Anna Lea Friðriksdóttir
Ingileif og María Rut gefa út nýja barnabók

Ingileif og María Rut gefa út nýja barnabók

Bókin Úlfur og Ylfa - Ævintýradagurinn eftir Ingileif Friðriksdóttur og Maríu Rut Kristinsdóttur er komin út hjá Sölku. Auður Ýr Elísabetardóttir teiknar fallegu myndirnar sem prýða bókina. Ingileif og María eru hjón og eiga þrjú börn en á dögunum eignuðust þær dóttur, einungis nokkrum dögum áður en bókin kom út. Þær halda úti fræðsluvettvanginum Hinseginleikinn og hafa verið framarlega í jafnréttisbaráttu hinsegin fólks á Íslandi. Bókin er sú fyrsta um Úlf og Ylfu sem lesendur eiga eftir að kynnast nánar í framtíðinni. Úlfur, önnur söguhetja bókarinnar, á tvær mömmur en mikilvægt er fyrir börn að geta speglað sig í sögunum sem lesnar eru fyrir þau og munu aðrar bækur um Úlf og Ylfu einnig fagna fjölbreytileikanum í allri sinni dýrð í skemmtilegum sögum fyrir hressa krakka.
Bókakvöld - Líkaminn geymir allt

Bókakvöld - Líkaminn geymir allt

Verið hjartanlega velkomin á bókakvöld Sölku miðvikudaginn 10. maí kl. 20. Til umfjöllunar og kynningar þessu sinni er hin merkilega bók Líkaminn geymir allt eftir geðlækninn Bessel Van Der Kolk sem farið hefur sem stormsveipur um metsölulista heimsins og Ísland er þar engin undantekning á. Þýðendur bókarinnar, Hugrún Hrönn Kristjánsdóttir og Arnþór Jónsson, koma til okkar og leiða okkur í allan sannleika um efni bókarinnar og tími mun svo gefast til umræðna. Bókabarinn verður að sjálfsögðu opinn, bókin á góðu tilboði og umræðuefni kvöldsins sannarlega merkilegt. Allir eru hjartanlega velkomnir á meðan húsrúm leyfir!
28. apríl 2023 eftir Anna Lea Friðriksdóttir
Lóa

Lóa H. Hjálmtýsdóttir hlaut Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar fyrir Héragerði!

Lóa H. Hjálmtýsdóttir hlaut Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar fyrir myndlýsingu í bókinni Héragerði. „Mikilvægt er að lesendur fái að upplifa að bók getur verið bæði fallegur og spennandi hlutur í sjálfu sér, jafnvel boðið upp á óvænta upplifun eins og litla bók í leynivasa! Það er skemmtilegt, og ákaflega mikilvægt, að nú skuli sífellt fjölga myndlýstum bókum fyrir lesendur sem komnir eru yfir hefðbundinn myndabókaaldur og gott að sjá myndræna útfærslu sem höfðar til þeirra notaða af svo mikilli leikni, og svo mikilli gleði,“ segir í umsögn dómnefndar.
21. apríl 2023 eftir Dögg Hjaltalín