Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk
Opnunartími til jóla

Opnunartími til jóla

Í aðdraganda jólanna lengjum við opnunartímann og bjóðum happy hour á bókabarnum alla daga, allan daginn! Við pökkum inn og setjum merkimiða á pakkana, verið hjartanlega velkomin!

18.-22. desember - opið frá 11-22

Þorláksmessa 23. desember - opið frá 11-23

Aðfangadagur 24. desember - opið frá 11-13

Lokað er 25., 26. og 31. desember. 

 

 

18. desember 2023 eftir Anna Lea Friðriksdóttir
Bókabarsvar með Bóbó

Bókabarsvar með Bóbó

Verið hjartanlega velkomin á síðasta bókabarsvar ársins miðvikudaginn 13. desember kl. 20 í bókabúð Sölku, Hverfisgötu. Spyrill og höfundur spurninga er Björn Halldórsson. Tveir og tveir saman í liði, bjórspurningin á sínum stað, verðlaun fyrir sigurvegara og allt á barnum á þúsund. Hamingjan sanna! Sem endranær er bókaþema en eins og við vitum getur í bókum búið allur heimurinn. Látið orðið berast og bjóðið bókelskum vinum - við hlökkum til að sjá ykkur í talsverðu stuði!
12. desember 2023 eftir Anna Lea Friðriksdóttir
Bókakvöld - Sigríður Hagalín og Bjarni Bjarna

Bókakvöld - Sigríður Hagalín og Bjarni Bjarna

Verið hjartanlega velkomin á bókakvöld í bókabúð Sölku miðvikudaginn 6. desember kl. 20. Sigríður Hagalín Björnsdóttir og Bjarni M. Bjarnason koma til okkar og kynna nýútkomnar bækur sínar, Deus og Dúnstúlkan í þokunni en fyrir þá síðarnefndu hlaut Bjarni á dögunum tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.
Húsið og bókabarinn opna kl. 19.30 - öll velkomin!
3. desember 2023 eftir Anna Lea Friðriksdóttir
Bókakvöld - Auður & Auður

Bókakvöld - Auður & Auður

Verið hjartanlega velkomin á bókakvöld Sölku miðvikudaginn 29. nóvember kl. 20. Nöfnurnar Auður Jónsdóttir og Auður Ava Ólafsdóttir koma til okkar og kynna nýútkomnar bækur sínar, Högna og DJ Bamba. Húsið og bókabarinn opna kl. 19.30, bækurnar verða á góðu tilboði og auðsótt að fá þær áritaðar. Við hlökkum til að sjá ykkur!
24. nóvember 2023 eftir Anna Lea Friðriksdóttir
Bókahátíð í Hörpu

Bókahátíð í Hörpu

Dagana 25. og 26. nóvember verður bókahátíð í Hörpu þar sem útgefendur og höfundar kynna með stolti bækur ársins fyrir gestum og gangandi. Salka og höfundar hennar verða að sjálfsögðu á staðnum, Sólveig Pálsdóttir og Valur Gunnarsson lesa upp úr Miðlinum og Stríðsbjörmum, Ingileif Friðriksdóttir, María Rut Kristinsdóttir og Annie Mist Þórisdóttir lesa upp úr Úlf og Ylfu og Hver er leiðin? í barnahorninu. 

Á bás Sölku verður svo hægt að læra tarot-lestur og -lagnir og Elsa Harðardóttir kemur til okkar og kennir okkur að hekla fallegar jólakúlur. Að sjálfsögðu verða allar bækur ársins til sölu á góðum kjörum og aldrei að vita nema við bjóðum upp á gotterí. Opið er frá 11-17 báða dagana.

Við hlökkum til að sjá ykkur í stuði!

21. nóvember 2023 eftir Anna Lea Friðriksdóttir
Hekla eftir Elsu Harðardóttur er komin út

Hekla eftir Elsu Harðardóttur er komin út

Á dögunum kom bókin Hekla eftir Elsu Harðardóttur út. Í Heklu má finna ævintýralegar og fallegar uppskriftir að hekluðum leikföngum fyrir yngstu kynslóðina; hringlur fyrir smákrílin, svani, einhyrninga, blómálfa, jólakúlur og margt fleira. Uppskriftirnar henta bæði byrjendum og lengra komnum.

Elsa Harðardóttir er forfallinn heklari og uppskriftir eftir hana hafa meðal annars birst í erlendum handavinnutímaritum. Hún þróaði uppskriftirnar og hugmyndirnar í bókinni í samstarfi við dóttur sína. 

Við fögnum útgáfunni í bókabúð Sölku fimmtudaginn 23. nóvember kl. 17.

21. nóvember 2023 eftir Anna Lea Friðriksdóttir
Bókakvöld - Bergþóra og Bragi Páll

Bókakvöld - Bergþóra og Bragi Páll

Verið velkomin á bókakvöld miðvikudaginn 22. nóvember kl. 20. Hjónin Bergþóra Snæbjörnsdóttir og Bragi Páll Sigurðarson koma til okkar og kynna nýútkomnar bækur sínar, Duft og Kjöt. Húsið og bókabarinn opna kl. 19.30. Öll hjartanlega velkomin!
21. nóvember 2023 eftir Anna Lea Friðriksdóttir
Bókakvöld - Stríðsbjarmar og Land næturinnar

Bókakvöld - Stríðsbjarmar og Land næturinnar

Verið velkomin á bókakvöld Sölku á Degi íslenskrar tungu, 16. nóvember kl. 20. Valur Gunnarsson og Vilborg Davíðsdóttir koma til okkar og segja frá nýútkomnum bókum sínum, Stríðsbjarmar og Land næturinnar, en þær eiga það sameiginlegt að gerast í austurvegi. Bókabarinn verður opinn, bækurnar á góðu tilboði og höfundar árita að kynningu lokinni. Öll hjartanlega velkomin!
11. nóvember 2023 eftir Anna Lea Friðriksdóttir
Bókabarsvar með Kristínu Svövu

Bókabarsvar með Kristínu Svövu

Nú er jólabókaflóðið að safna kröftum sínum áður en það skellur á af fullum þunga! Af því tilefni hefjum við jóladagskrá okkar í bókabúð Sölku með bókapöbbkvissi miðvikudaginn 8. nóvember kl. 20! Spyrill og höfundur spurninga er hin margfróða og svakalega skemmtilega Kristín Svava Tómasdóttir. Þemað eru bækur, eins og reglur bókabúðarinnar kveða á um, en athugið að í bókum býr allur heimurinn og þeim er ekkert óviðkomandi.
Tveir og tveir saman í liði, bjórspurningin á sínum stað og allt á barnum á þúsund kall! Allir hjartanlega velkomnir, hlökkum mikið til að sjá ykkur!
6. nóvember 2023 eftir Anna Lea Friðriksdóttir
Útgáfuhóf fyrir Stríðsbjarma

Útgáfuhóf fyrir Stríðsbjarma

Verið hjartanlega velkomin að fagna útgáfu bókarinnar Stríðsbjarmar - Úkraína og nágrenni á átakatímum eftir Val Gunnarsson með okkur föstudaginn 20. október kl. 17.30. Útgáfuhófið fer fram í bókabúð Sölku, Hverfisgötu 89-93. Boðið verður upp á léttar veitingar, bókin verður á útgáfutilboði og höfundur áritar og kynnir bókina. Öll velkomin!
Við sama tækifæri fögnum við útgáfu bókarinnar What if Vikings Had Conquered the World, einnig eftir Val Gunnarsson, sem kom út fyrr á árinu.
17. október 2023 eftir Anna Lea Friðriksdóttir